Færslur: 2005 September

30.09.2005 16:44

Klukkuð

Fimm lítt þekktar staðreyndir um mig:

  • Ég borða M&M eftir ákveðnu kerfi. Ekki í jöfnum tölum eða oddatölum heldur bara liti sem mér finnst passa saman.
  • Ég er svakalega hefnigjörn. Gott dæmi um það er að þegar ég er vakin á nóttunni af nágrönnum sem eru með partý hef ég það fyrir reglu að fara morguninn eftir á slaginu sjö og vekja viðkomandi. Þá tilkynni ég þeim að þegar ég sé vakin á nóttunni finnist mér sjálfsagt að þeir sem veki mig vakni líka þegar ég þarf að fara á fætur. Ég tel mig vera í fullum rétti enda á samkvæmt húsreglum að ríkja ró á milli 12 og 7.
  • Ég er ekki mikill sóldýrkandi. Vil helst hafa rigningu og milt veður, útlandarigningu með logni. Enn betra ef það er þoka líka. Ég fer alltaf í svo gott skap þegar veðrið er þannig.
  • Þeir sem þekkja mig vita að ég er trúlofuð honum Stígi mínum. Fæstir vita þó að þetta er í annað skiptið sem ég er trúlofuð. Fyrrverandi unnusti minn heitir Ketill og við vorum saman á leikskóla í Mývatnssveit. Ég ákvað að við ættum líka að vera trúlofuð eftir að Berti bróðir trúlofaði sig og Ketill sem var besti vinur minn samþykkti það.
  • Ég er algjör sökker fyrir íþróttahetjumyndum. Ekta amerískum vellum sem enda alltaf á sigri góðu kallanna (í þeim albestu deyr samt einhver fyrst)

Ég ætla ekki að klukka neinn enda held ég ekki að það sé nokkur maður eftir sem ekki er búið að klukka. Einhver verður að taka af skarið og segja stopp.

30.09.2005 15:20

Múhahaha

Í sumar bættu Leiknismenn við tveimur nýjum fótboltavöllum. Því miður eru þeir staðsettir rétt handan við götuna frá svefnherbergisgluggunum okkar.  Þar hlaupa þessir asnar á eftir tuðrunni og öskra hver á annan: ,,Koma svo!" Þetta gera þeir langt fram á kvöld og dettur ekki í hug að kannski sé fólk að reyna að svæfa börnin sín í næstu húsum. Völlurinn er líka flóðlýstur og það stundum fram yfir miðnætti. Ég hef einu sinni þurft að hringja á lögregluna út af þessu ónæði en þá var komið miðnætti og öskur og flaut í gangi. Löggan sagði að þeir væru nýbúnir að tala við bjánana og að þeir hefðu sagst vera alveg að hætta. Stuttu seinna hættu þeir svo að spila en byrjuðu í staðinn að safna saman nýslegnu heyi. Allt í lagi með það fyrir utan að þeir fóru að spjalla saman, hver í sínu horni hrópuðu þeir sniðug komment og ræddu heimsmálin af mikilli skynsemi (not). Steininn tók úr þegar einn fór að syngja Lóan er komin. Þetta gerðu þeir svo hátt að maður heyrði hvert einasta orð.
Nú sit ég við eldhúsgluggann minn og horfi yfir á Leiknisvöllinn með bros á vör.
Ástæðan? Þar vappa um á annað hundrað gæsir sem hafa gert sig þar heimakomnar í haust. Mitt hefnigjarna hjarta vonar að Leiknismenn renni til á gæsaskítnum og detti ofan í herlegheitin. Þá hefðu þeir virkilega eitthvað til að öskra yfir.

15.09.2005 14:14

Jei. Ég veit kynið á ófædda barninu þeirra Silju og Dóra ...
Ég ætla nú ekki að ljóstra því upp hér, þau vilja örugglega gera það sjálf.
Ég er alveg í skýjunum og get ekki beðið eftir að sjá litla krílið.

15.09.2005 14:08

Nú standa yfir amerískir dagar í Hagkaupum. Allt í góðu með það, amerískur matur heillar mig ekkert sérstaklega en misjafn er smekkur manna. Hins vegar verð ég að segja að sjónvarpsauglýsingin fyrir áðurnefnda daga er til háborinnar skammar. Maðurinn sem les upp allt góðgætið er ekki kani frekar en ég. Hvílík hrottaleg misþyrming á ensku. Hann rembist eins og rjúpan við staurinn til að reyna að hljóma sannfærandi en gleymir sér svo í öðru hverju orði og íslenski hreimurinn skín í gegn. Gott dæmi er hvernig hann segir Hagkaup; Haaag - kaup. Einbeitir sér að Haaag en segir svo kaup eins og hver annar Íslendingur.
Mér hefði þótt nær að fá einhvern alvöru Bandaríkjamann til að lesa þetta, nú eða bara hafa auglýsinguna á íslensku.
Ég ætla að vona að þetta hafi frekar verið tilraun til fyndni, léleg að vísu, heldur en fúlasta alvara.

 

09.09.2005 08:53

Ruglingslegt ...

Úlfur er byrjaður að vera hjá dagmömmu og gengur ágætlega að aðlagast því. Hann veifar mér bless og fer svo að leika við krakkana. Ég þarf svo að sækja hann ca tveimur og hálfum tíma seinna því þá harðneitar hann að sofna og er orðinn útkeyrður. Jórunn ætlar að reyna að breyta þessu og ég vona nú að það takist.
Í gær var ný stelpa að byrja hjá dagmömmunni. Hún er um tveggja ára og greinilega með dýraríkið á hreinu. Hún spurði Jórunni um hina krakkana og hvað þau hétu. Þegar Jórunn sagði henni hvað Úlfur héti svaraði sú stutta: ,,Það getur ekki verið, hann er með haus!" og meinti sennilega að hann væri mennskur en ekki úlfur.  Mjög rökrétt.
Úff, vorum við að gera barninum einhvern meiri háttar grikk með þessu nafni? Mér finnst þetta ekkert öðruvísi en að heita t.d. Haukur, Hrafn, Lóa o.s.frv.  Ætli honum verði strítt af öllum Gabríel Mánunum og Tristan Snæunum? Ég get ekki sagt að ég hafi miklar áhyggjur af því og ég held að hann muni þakka okkur þegar hann verður eldri fyrir að hafa fengið virðulegt nafn sem hæfir fólki líka eftir grunnskóla.

07.09.2005 12:34

Skólinn

Loksins, loksins er ég orðin háskólanemi !
Ég er skráð í fullt nám í ensku og líst bara nokkuð vel á þetta allt saman. Það eina sem skyggir á gleði mína er að ég neyðist til að læra að hljóðrita ensku. Það gæti reynst strembið, sérstaklega miðað við að ég kann ekki almennilega að hljóðrita mitt eigið móðurmál. Bragi íslenskukennari í MR reyndi sitt besta til að sannfæra mig um að allir gætu hljóðritað og að það væri jafn auðvelt og að stökkva jafnfætis upp á smá þröskuld sem var í stofunni. Síðan sýndi hann kúnstir sínar og taldi sig hafa sannað mál sitt. Ég var aldrei neitt sérstaklega góð í að hoppa jafnfætis og taldi mig þar með vonlausa frá byrjun, enda kom það berlega í ljós og enn heyri ég t.d. aldrei muninn á frammæltu og tannbergsmæltu. Þá er bara að taka á því og vera dugleg frá byrjun.

03.09.2005 21:37

Heima er best

Við erum komin heim eftir þriggja vikna reisu um Danmörku og Svíþjóð. Heimsóttum bræður okkar Stígs og fjölskyldur þeirra, föðurbróður minn og konuna hans og vorum svo viku í Köben. Úlfur stóð sig eins og hetja og var ótrúlega duglegur að aðlagast nýjum aðstæðum. Við gistum á hvorki meira né minna en sex mismunandi stöðum og versluðum í álíka mörgum H&M búðum :)
Ónæmiskerfið mitt rústaðist eftir vikudvöl, örugglega vegna álags (er með ofnæmi fyrir ryki og kattarhárum) og ég var virkilega veik í nokkra daga og fékk svo risa frunsur á vörina og í nösina. Ekki það skemmtilegasta en svona er að vera ofnæmisgemlingur.

Ferðin var engu að síður frábær og margt stendur upp úr:

*Ég keyrði vespu hjá Berta bróður (það drapst á henni og Berti þurfti að koma að leita að mér í völundarhúsahverfinu sem hann býr í)
*Við fengum pólskar pylsur og rauðrófusúpu hjá pólskri konu föðurbróður míns. Furðulega bragðgott.
*Við gistum á farfuglaheimili í Karlskrona sem var áður deild fyrir geðsjúka. Ágætt að vera þar fyrir utan það hvað þar var andskoti reimt. Á neðri hæðinni var lokuð deild, afdeling 17. Við sáum aldrei neinn þaðan nema einn (sennilega) starfsmann sem pabbi reifst við því hann lokaði á nefið á pabba. Það bjargaði alveg deginum hjá pabba sem var ákaflega ánægður með að geta ennþá rifist á sænsku.
*Við fórum vitlausan veg á leið frá Svíþjóð til Danmerkur og tókum því smá krók. Stoppuðum til að borða og  fundum svona ekta kaupfélagsbúð þar sem fæst allt milli himins og jarðar. Þar, af öllum stöðum, fann pabbi á sig föt sem eru extra long og meira að segja stígvél í stærð 47. Hann var búinn að leita út um allt að buxum en hafði ekki fundið. Héðan í frá fer hann örugglega í verslunarferð á hverju hausti. Ekki til Dublin eða Minneapolis heldur til Höör á Skáni, íbúatala yfir 14,000 skv. http://www.hoor.se/. Get alls ekki mælt með veitingastaðnum Hungrige Harry. Látum nægja að segja að það er engin ráðgáta af hverju Harry er alltaf svona hungraður.
*Við fórum með Úlf í Tívolí og Dýragarðinn í Köben. Hann var svo spenntur fyrir öllu sem var að gerast að hann neitaði að sofna. Í dýragarðinum var hann hrifnastur af selunum, sæljónunum og mörgæsunum.
*Við Stígur fórum í nokkur tæki í Tívolí og Stígur tók shit-fuck-shit-fuck rútínuna sína í rússíbananum, alveg eins og á Spáni. (Þá rígheldur hann sér í festingarnar og muldrar framangreint á leifturhraða.)
*Við ferðuðumst með metro í Köben og Stígi paranoid var hreint ekki sama þegar allt fylltist af vörðum á stöðinni. Hann hélt að nú væri hans síðasta stund upprunnin. Þeir voru víst að athuga hvort fólk væri með miða en ekki leita að sprengjum og hryðjuverkamönnum.
*Við komum heim með vel á annað hundrað kíló af farangri ( 4 fullorðnir) og borguðum ekki krónu í yfirvigt. Ég sá um innritunina og þóttist vera ákaflega clueless og varnarlaus. ,, Nú, er það svona mikið sem kostar fyrir hvert kíló í yfirvigt?" og ,, Það er svo mikið dót sem fylgir litlum börnum."

Man ekki meira í bili en myndir má sjá á www.stigur.com

  • 1
Flettingar í dag: 15
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 6
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 64367
Samtals gestir: 30388
Tölur uppfærðar: 25.7.2021 09:47:39