Færslur: 2005 Nóvember

26.11.2005 00:02

Velkomin í heiminn

Tvíburar Leifs og Ernu eru loksins komnir í heiminn !!!

Erna stóð sig eins og hetja og fæddi þau kl. 9:43 og 9:53 í kvöld eftir 35 vikna meðgöngu.  Stúlkan var 10 merkur og drengurinn 9 merkur og þeim heilsast vel.

Hjartanlega til hamingju með litlu ljósin ykkar, elsku Erna og Leifur. 

Velkomin í heiminn litlu kríli og þið hefðuð ekki getað valið ykkur betri foreldra !

25.11.2005 22:11

Handlaginn heimilisfaðir

Það er ekki hægt að segja að hann Stígur minn sé handlaginn eða hafi sérlega mikið verksvit. Þeir sem þekkja hann vita að hann er með tíu þumalputta og hefur einkennilegar hugmyndir um hver sé besta leiðin til að leysa vandamál (að undanskilinni forritun). Við mamma köllum hann Núma (eftir karakter í Spaugstofunni) og höfum stundum rætt um að skrifa niður snilldina til að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Besta dæmið sem ég man eftir er um hvernig Stígur hafði hugsað sér að setja saman borðstofuborðið okkar.
Við vorum nýflutt inn og ég kasólétt og mátti ekki lyfta litlafingri þá var mér sagt að slappa af. Ég vildi samt endilega koma einhverju í verk eitt kvöldið og datt í hug að við Stígur settum saman borðstofuborðið okkar í hvelli. Stígur vissi ekki hvert hann ætlaði, þetta væri nú ekki verk fyrir okkur tvö heldur myndi hann fá tvo sterka karlmenn til að hjálpa sér við þetta á morgun. Ég skildi ekki alveg hvernig hann hafði hugsað sér þetta og spurði hvað þeir ættu svo sem að gera sem við réðum ekki við. Svarið var að þeir ættu auðvitað að halda borðplötunni fyrir ofan lappirnar á meðan hann legðist á gólfið undir borðið og skrúfaði lappirnar á plötuna ! Þetta frábæra svar minnir mig alltaf á brandarana um hvernig Hafnfirðingar mjólka belju og skipta um ljósaperu. Einn mjólkar/ skrúfar á meðan hinir halda.
Á þessu heimili er það ég sem set saman Ikea húsgögn og ef það þarf að gera eitthvað flóknara biðjum við pabba að hjálpa okkur. Mér fannst það þess vegna mjög fyndið þegar Stígur sagði við mig um daginn alveg upp úr þurru: ,,Við þurfum að fá okkur borvél. "
Ég hef enga trú á að hann myndi nota hana mikið en ég sagði bara að hann réði því alveg. Það verður spennandi að sjá hvað honum dettur í hug að gera við svoleiðis tryllitæki....

Ég er að sjálfsögðu ekki að gera grín að gáfnafari míns heittelskaða enda vita þeir sem þekkja hann að það er í góðu lagi, hann er hins vegar mjög fljótfær og virðist stundum ekki hugsa hlutina alveg til enda áður en hann segir þá.

13.11.2005 00:32

Busy little bee

Já ég er búin að hafa frekar mikið að gera undanfarið. Hefði alveg getað bloggað oftar en kaus að gera eitthvað annað (skemmtilegra) í staðinn. Það er svo sem ekkert merkilegt að frétta en þetta er svona það helsta sem ég man eftir:

* Úlfur átti afmæli og varð eins árs. Okkur aðstandendunum þótti það nú merkilegra en honum.

* Við erum búin að færa tölvuna í eldhúsið og ætlum að nota aukaherbergið sem leikherbergi fyrir Úlf. Ég vil endilega gera það í Bangsímon stíl, væmið ég veit en mig langar til að njóta þess að hafa hann lítinn og krúttlegan. Það líður örugglega ekki á löngu áður en hann heimtar að hafa Turtles eða Spiderman og verður algjör töffari.

* Við keyptum okkur king size rúm sem er 193 cm á breidd! Nóg pláss fyrir Úlf á milli okkar og jafnvel fleiri börn ;)

* Ég fór í mitt fyrsta próf í háskólanum. Svo óheppilega vildi til að það var á mánudeginum eftir afmælishelgina og ekki mikil orka eftir til undirbúnings. Prófið var í breskum bókmenntum og gekk út á að þekkja höfund og heiti ljóða með því að sjá nokkrar línur og svara svo krossaspurningum um höfundana, þeirra líf og verk. Ég tók þá ákvörðun að sleppa því að lesa ljóð Wordsworth sem voru ansi mörg og keimlík og einbeita mér þess í stað að hinum höfundunum sjö og ljóðunum þeirra. Þetta komst ég upp með vegna þess að ljóðaspurningarnar voru 20 en við áttum að svara 15. Ég kannaðist við 14 ljóðabrot og valdi svo eitt af þeim sem eftir voru og ég taldi mig ekki hafa séð áður og það sagði ég vera eftir Wordsworth. Þetta gekk ágætlega og ég var með 8 í prófinu öllu (54 af 60 rétt í því að þekkja ljóðin). Nokkuð gott miðað við tímann sem ég hafði til að læra undir prófið og það að ég er í fjarnámi og hef ekkert mætt í fyrirlestrana.

* Erna, Kristín og ég fórum til Erlu frænku og báðum hana að spá fyrir okkur. Hún er búin að gera þetta í mörg ár og er ansi góð. Alla vega kom hún með nokkur atriði rétt um Kristínu og Ernu sem hún gat ekki vitað enda þekkir hún þær ekki neitt. Framtíðin var björt hjá okkur fjölskyldunni, mikið af ást, traust heimili og meira að segja fullt af peningum! Ég myndi ekki taka það alvarlega þótt ég fengi slæma spá enda er þetta meira til skemmtunar en fyrst hún var svona góð ætla ég bara að leyfa mér að trúa henni þar til annað kemur í ljós. Það er alltaf gott að vera bjartsýnn gagnvart framtíðinni því að þá er maður jákvæðari og gengur betur.

* Stígur er búinn að venja Úlf af því að vakna á nóttunni! Það skilur enginn sem ekki á barn hvað þetta eru góðar fréttir. Ég er á fullu að vinna upp 11 mánuði af frekar litlum og slitróttum svefni. Lausnin var sú að ég fór og gisti hjá mömmu og pabba og Stígur vaknaði með Úlfi. Þar sem Stígur er bæði mun lengur að vakna en ég og þolir að heyra Úlf gráta og þar sem hann er ekki með brjóst þá hætti Úlfur að nenna þessu enda var hann ekki að fá sína venjulegu þjónustu. Bein afleiðing af betri nætursvefni er að hann sefur betur á daginn og er orðinn allt annað barn hjá Jóu dagmömmu.

* Þetta þýðir líka að nú get ég farið eitthvað á kvöldin án þess að eiga á hættu að vera kölluð aftur heim eftir klukkutíma eins og hefur nokkuð oft gerst. Úlfur og Stígur eru orðnir svo góðir saman að það er alveg frábært.  Ég er nú þegar búin að plana að fara á White Stripes og svo ætlar 6. A að hittast rétt fyrir jólin og borða saman. Það verður frábært að hitta alla aftur og líka að vera ekki alveg svona bundin.

Takk fyrir allar afmæliskveðjurnar og heimsóknirnar, það er gaman að finna hvað maður á góða að.

 

  • 1
Flettingar í dag: 15
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 6
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 64367
Samtals gestir: 30388
Tölur uppfærðar: 25.7.2021 09:47:39