Færslur: 2006 Janúar

04.01.2006 19:09

Meira af póstmálum

Þetta póstmál er nú eiginlega hætt að vera fyndið: Ég var að koma frá pabba og mömmu sem búa í Jórufelli 2 og í póstkassanum þeirra var bréf til manneskju í Iðufelli 2  ! Bréfberinn hefur greinilega ekki fundið Iðufell og kemur póstinum þeirra ýmist á Gyðufell sem er vestan við Iðufell eða Jórufell sem er í austur. Svo er bara að vona að maður verði heppinn í bréfalottóinu og fái feita ávísun !

04.01.2006 14:36

Til hamingju

Til hamingju með 22 ára afmælið elsku Silja !

04.01.2006 14:30

Ráðgátan leyst

Þar sem ég labbaði meðfram hinni geysifallegu blokk Fannarfell-Gyðufell-Iðufell (í daglegu tali Langavitleysan) rakst ég á afar hressan en jafnframt kolringlaðan mann í rauðri úlpu. Sá ávarpaði mig á ensku og vildi vita hvar í veröldinni hann væri nú staddur. Ég útskýrði að þetta héti Iðufell en það virtist ekki nægja honum sem spurði "What´s this whole area called?" Ég sagði að þetta væri Fellahverfið en hann virtist enn ekki kveikja og ég bætti við Breiðholtið (og bjó mig undir að segja Reykjavík, Ísland, Jörðin o.s.frv. þar til hann næði þessu). Þess þurfti þó ekki því annað hvort var hann búinn að ná þessu eða nennti ekki að tala við mig lengur því hann veifaði mér burtu með ekta bresku "Cheers".

Þetta ómerkilega samtal útskýrir nokkuð sem ég er búin að vera að velta fyrir mér: Undanfarna daga hefur okkur fjölskyldunni borist óvenjumikill bréfapóstur í póstkassann (sem er skilmerkilega merktur nöfnunum okkar með prentuðum miða). Þessi bréf hafa þó langt í frá verið öll stíluð á okkur, ætli hlutfallið sé ekki svona 50/50. Sum hafa ekki einu sinni verið með réttum heimilisföngum og það er alls ekki hægt að segja að nöfnin séu á nokkurn hátt lík okkar nöfnum. Í dag fékk ég m.a. bréf til Soffíu Jónu Jónsdóttur, Hönnu Maríu Alfreðsdóttur og rúsínan í pylsuendanum: Omar Allal.  Omar Allal - Stígur Þórhallsson. Örugglega náskyldir!

Þessi skemmtilegi maður sem ég hitti sem virtist vera meira að drífa sig en að vanda sig var nefnilega bréfberinn. Það er gott að sjá metnaðinn sem Pósturinn hefur fyrir því að koma bréfunum okkar til skila. Ætli fólkið í Iðufelli 6 sé þá að fá bankayfirlitin okkar í póstlotteríinu? Kannski maður ætti að fara og athuga það...

  • 1
Flettingar í dag: 15
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 6
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 64367
Samtals gestir: 30388
Tölur uppfærðar: 25.7.2021 09:47:39