Færslur: 2006 Apríl

09.04.2006 23:04

Allt á uppleið

Heilsan að skána og komnir sex sólarhringar án þess að æla ! Það virðist vera að þrýstingurinn frá kinn-og ennisholunum hafi viðhaldið ógleðinni lengur en ella hefði verið. Sló sem sagt tvær flugur í einu höggi með þessum skolunum; ógleðina og kvefið. Ekki leiðinlegt :) Ég er líka sísvöng núna og bumban stækkar með hverjum deginum.

Á fimmtudaginn vorum við Stígur búin að vera saman ellefu ár. Ótrúlega langur tími og ótrúlega merkilegt að við skulum hafa enst saman í gegnum alla gelgjuna og vitleysuna sem fylgir því að verða fullorðinn. Deginum eyddum við að mestu í læknisleik en ekki á skemmtilegan hátt. Veikindastúss á mér alltaf. Rómantíkin verður bara að bíða betri tíma.

Á morgun erum við svo að fara í 20 vikna sónar og erum eiginlega búin að ákveða að fá ekki að vita kynið!  Það er að segja ef ég get hamið mig og sleppt því að spyrja. Hugsa að ég hefði sprungið úr forvitni á seinustu meðgöngu ef ég hefði ekki fengið að vita það þá. Gaman að upplifa hvoru tveggja; vita fyrirfram og vita við fæðingu.

Svo er stefnan tekin á Akureyri um páskana, erum búin að leigja þar íbúð með mömmu og pabba. Hlökkum rosalega til að slappa svolítið af og hafa það skemmtilegt. Hér ríkir því bjartsýni og gleðin er aftur við völd :)

05.04.2006 13:57

Alltaf batnar það ...

Svona lít ég út núna: 

Best að taka það fram að Stígur kom ekki nálægt þessu heldur var það ung kona sem heitir Liv og er læknir. Indæliskona sem var að skola út úr kinnholunum á mér og þá getur þetta gerst; það fór slatti af steríla vatninu undir húðina í staðinn fyrir inn í holurnar. Allt svæðið undir auganu tútnaði út og augað var alveg sokkið í gærkvöldi.

Varúð: Ógeðslegar lýsingar. Eftir að hafa grátið (ýkjulaust) úr verkjum í höfði og andliti tvo daga í röð var ég tilbúin að reyna hvað sem var til að losna við kinnholubólgurnar. Við enduðum því á slysó í gær þar sem teknar voru röntgenmyndir af mér og mér tilkynnt af lækni að ég hefði sko fullan rétt á að kvarta enda væri ég alveg stífluð.  Það væri ekkert annað í stöðunni en að skola út öllum greftrinum. Það að setja slöngur upp í nefið á mér og skola út hljómaði ekkert svo illa á þeirri stundu. Það er hins vegar eitt það versta sem ég hef lent í : Í fyrsta lagi eru þessar slöngur festar á nálar sem er skotið (já skotið eins og göt í eyru) í gegnum slímhúðina. Síðan eru margar ampúlur af sterílu vatni hitaðar og þeim sprautað inn í holrúmin sem eru stífluð. Þrýstingurinn var ótrúlegur ! Það var ekkert pláss fyrir meiri vökva þarna og ég fann hvernig allt þandist út niður í tennur og upp undir augu. Sársaukinn var svo mikill að ég rak upp hljóð sem Stígur heldur því fram að hann hafi heyrt á biðstofuna heilli hæð og mörgum göngum neðar. Síðan heyrði ég hátt brak og allt fossaði niður um nefið aftur. Vatnið, kolgrænn gröftur og svo blóð. Þvílíkt magn af ógeði, meira að segja lækninum sem er nú vön fannst þetta hellingur. Þetta er bara gert við aðra nösina í einu og því allt ferlið endurtekið !

Síðan fór ég og fékk settan upp legg í æð til að geta fengið sýklalyf (ég get ekki haldið töflum niðri út af þessu ælustandi) og þangað er búið að dæla fljótandi sýklalyfjum tvisvar og ekki búið enn. Ég á tíma klukkan þrjú hjá sama lækni sem ætlar að meta hvort það þurfi að skola aftur og ég hef lúmskan grun um að svo verði ! Er alla vega enn með þrýsting og ég held að hún hafi ekki getað skolað nógu vel hægra megin því að hún varð að hætta þegar það fór að fara undir húðina. Get ekki sagt að ég hlakki til :(

Ég er ekkert neikvæð, bara orðin þreytt á þessu endalausa veseni á mér. Auðvitað er ég glöð að fá þessa hjálp til að losna við allt saman. Ég áskil mér rétt til að kenna verkjalyfjum um allar stafsetningarvillur í þessari færslu !

02.04.2006 09:42

Væl og vanlíðan

Þá er bara kominn apríl og það virðist ekkert lát vera á ælunni (já, ég er ólétt, já, aftur !) Er komin rúmar 18 vikur á leið og er búin að vera með síversnandi ógleði og uppköst síðan ég var komin tæpar 6. Það gera 12 vikur af vanlíðan og, trúið mér, það er l a n g u r tími. Til að bæta gráu ofan á svart er ég líka búin að vera með þessa andstyggilegu flensu sem er að ganga í 11 daga. Kinnholubólga er rosalega sársaukafull eins og sést best á því að ég er búin að vera að taka verkjalyf. Ég, sem tek aldrei verkjalyf og bað ekki einu sinni um þau þegar ég var með hríðir í 17 tíma. Í gær var ég orðin svo máttfarin og léleg að ég var farin að hafa áhyggjur af barninu og við fengum að kíkja upp á meðgöngudeild í tékk. Þar var yndislegt starfsfólk sem tók á móti okkur og fullvissaði um að allt væri í lagi. Ég hafði sem sagt náð að nærast og drekka nóg til að halda uppi vökva og var ekki farin að brenna vöðvum (kannski smá fitu en það er nú í lagi).

 Við græddum líka auka sónar á þessu því að þegar ljósmóðirin var búin að reyna að eltast við hjartsláttinn í 5 mínútur gafst hún upp og sendi okkur bara í sónar. Þetta kríli virðist alltaf vera á fleygiferð því að það eiga allir í vandræðum með að finna hjartsláttinn í nógu langan tíma til að mæla, krílið hefur ekki tíma í þetta og er bara rokið burtu. Þetta verður sennilega algjör ærslabelgur. Þetta kríli er alveg jafnfallegt og stóri bróðir og virðist hafa svipað höfuðlag. Hahaha genin mín eru greinilega svona sterk og Stígur fær ekki að eiga neitt í þessum börnum okkar!

  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 6
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 64365
Samtals gestir: 30388
Tölur uppfærðar: 25.7.2021 09:20:08