Færslur: 2006 Júní

22.06.2006 09:22

30 vikur í dag !

10 vikur eftir (+-2)

Mér líður bara nokkuð vel. Þarf endalaust að sofa, vildi helst sofa 12 tíma á sólarhring. Skil núna hvað ljósmóðirin átti við þegar ég gekk með Úlf, þá sagði hún mér að njóta þess að geta hvílt mig að vild því að þannig yrði það ekki með næsta ;)

Ég skellti mér í meðgöngusundið í gær. Það er búið að færa tímana í Salalaugina í Kópavogi á meðan hin laugin verður lagfærð. Salahverfið er hérna rétt handan við Rjúpnahæðina og maður skyldi ætla að það væri fljótlegra að fara þangað en niður á Hrafnistu. Nei, ekki aldeilis. Ég get valið um að taka ÞRJÁ strætóa hvora leið eða tvo og skipta þá á HLEMMI. Auðvitað passa tímasetningarnar á þessum þremur engan veginn saman og ég þurfti að sitja og bíða á þremur stöðum á heimleiðinni. Annar valkostur er að labba hreinlega í gegnum Seljahverfið og yfir í Kópavog eins og ég gerði í gær. Það tekur styttri tíma en þessar NÍUTÍU mínútur af strætóævintýrum. Ég verð samt að viðurkenna að ég nenni ekki að labba heimleiðina því það er meira upp í móti.

Ég var í frekar vondu skapi þegar ég kom heim í gær eftir þetta vesen. Það bjargaði geðheilsunni að í póstkassanum var bæklingur frá Tiger. Þetta er eini "ruslpósturinn" sem ég les spjaldanna á milli og bölva ekki sem pappírseyðslu. Þvílíkur snillingur hún Auður Haralds sem semur víst textann. Ég get ekki beðið eftir því að Úlfur verði nógu stór til að ég geti farið að lesa Elíasarbækurnar fyrir hann. Það skal ekki standa á mér að gera skyldu mína og kynna heimsbókmenntirnar fyrir drengnum ;)

07.06.2006 09:51

Óléttublogg

Innan við þrír mánuðir eftir af þessari meðgöngu ! Úff ! Tíminn flýgur þessa dagana. Mér fannst ég ganga með Úlf í mörg ár og hélt að það yrði aldrei búið en núna finnst mér ég nýbúin að fá jákvætt. Kannski er það vegna þess að mér liggur þannig séð ekkert á að fá þetta barn, er svolítið stressuð yfir því hvernig Úlfur muni taka því að deila mér með öðru kríli. Hann er algjör mömmustrákur þessa dagana og vill endalaust kyssa og knúsa mig og mér finnst það svo sem ekkert slæmt og ætla bara að leyfa honum að njóta þess að hafa alla athyglina.

Mér líður rosalega vel þessa dagana, greinilega fædd til að ganga með börn (fyrir utan svona smotterí eins og að æla fyrstu 4-5 mánuðina). Ég er búin að vera í meðgöngusundi í tæpa tvo mánuði og finn hvað það gerir mér gott, er öll að styrkjast og jafna mig. Labba líka á hverjum degi og ætla að vera í góðu formi í fæðingunni. Ljósmóðirin mín er alltaf jafn ánægð með mig í mæðraskoðunum og segir að þetta sé allt alveg eftir bókinni og til fyrirmyndar.

Ég er að hugsa um að eiga barnið á Selfossi ef ég treysti mér í bílferðina þegar hríðinar eru byrjaðar. Þar er lítil og persónuleg fæðingardeild en allur viðbúnaður ef eitthvað kemur upp á; hægt að gera keisara og öll inngrip. Þar er líka boðið upp á að eiga í vatni sem er eitthvað sem ég vil geta átt kost á ef ég kæri mig um og allt gengur vel. Mikilvægast í mínum huga er það að á Selfossi yrði fæðingin ekki að færibandavinnu fyrir starfsfólkið, þar fæðast ekki börn daglega og ljósmóðirin hefur tíma til að sinna hverri konu almennilega. Ég var nefnilega ekki sátt við þá þjónustu sem við fengum á Landspítalanum eftir að Úlfur var fæddur. Málið var greinilega afgreitt af þeirra hálfu þegar barnið var komið og búið að sauma.

Ég verð að viðurkenna að ég er orðin ansi spennt að vita hvort kynið við fáum, er ennþá viss um að þetta sé stelpa en verð alveg jafn ánægð með annan strák.  Það væri sniðugt að eignast stelpu 4. september. Þá yrðum við 4. sept. og 4. okt. og þeir strákarnir 6. okt. og 6. nóv. Það virkar eitthvað svo snyrtilegt og skipulagt  :)

  • 1
Flettingar í dag: 13
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 6
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 64365
Samtals gestir: 30388
Tölur uppfærðar: 25.7.2021 09:20:08