Færslur: 2006 September

09.09.2006 02:29

Tilviljun ?

6. nóvember 2004 : Vaknaði kl 2:30 við sára verki og var þá komin með hríðir. Gengin 8 daga fram yfir með Úlf og það var aðfararnótt laugardags.

9. september 2006: Vaknaði kl 2:15 við sára verki. Gengin 8 daga fram yfir og það er aðfararnótt laugardags....

Ótrúleg nákvæmni eða eintóm tilviljun? Framhald seinna ....

06.09.2006 21:18

40 vikur + 5 dagar

Neibb, ekkert að gerast í bumbumálum...

Verð bara að monta mig af fallega og vel gefna barninu mínu. Hann er farinn að tala svo mikið og nota flóknar, margra orða setningar. Er byrjaður að beygja orð og nota sagnir rétt (stundum). Sagði t.d. um daginn við eina fóstruna þegar ég sótti hann á leikskólann: ,,Mamma komin, pabbi kemur bráðum." Þær á leikskólanum eru rosalega hissa á hvað hann talar mikið og hefur góðan orðaforða. Aðlögunin var ekkert mál og hann kveður mig með brosi á morgnana og segir bara bless og sjáumst seinna.

Það er orðið hægt að spjalla heilmikið við hann. Sem dæmi þá gleymdi pabbi hans að athuga hvað hann hefði borðað á leikskólanum í dag (hangir alltaf matseðill uppi). Ég fór að spyrja Úlf og það stóð ekki á svari: ,, Kappellur, kúnkling og tómmata." (Kartöflur, kjúkling og tómata)
Ég var líka að spyrja hvað hann héti og hann svaraði því rétt og líka hvað við Stígur heitum. Hann er þegar búinn að eignast nokkra vini á leikskólanum sem hann kveður með nafni þegar pabbi hans kemur að ná í hann. Algjör snúlli.

Það besta er hvað hann getur verið indæll og umhyggjusamur. Þessa dagana er hann voða mikið að annast mig, skipar mér að fá mér að borða og leggja mig. Kemur alltaf reglulega og knúsar mig og tilkynnir að hann sé mömmumoli (ég kalla hann stundum mola).

Ég skrapp í klippingu í dag á meðan þeir feðgar voru ekki heima. Svo koma þeir heim og Stígur tekur ekki eftir neinu. Ég tók svo Úlf í fangið til að heilsa honum og viti menn; hann strauk á mér hárið og sagði fínt. Þetta fannst mér alveg óborganlegt og sýnir nú best hvað hann er athugull. Hann vill líka endilega að ég sé fín. Kemur stundum með hælaskó sem ég á og vill að ég fari í þá og setji á mig eyrnalokka !

02.09.2006 14:11

40 vikur + 1 dagur

Jæja, ekkert að gerast í augnablikinu. Er nokkrum sinnum búin að fá væga verki sem verður svo aldrei neitt meira úr. Skrítin tilfinning að bíða eftir að þjást og vita ekki hvenær það verður og fagna hverjum sting og óþægindum en ég er farin að verða svolítið óþolinmóð að klára þetta og fá litla krílið mitt í fangið.  Veit að ég á eftir að njóta þess betur núna en þegar ég átti Úlf og var svo stressuð og kunni ekkert á ungabörn. Ég svaf varla því ég var alltaf að athuga með hann þegar hann var sofandi og svo þegar ég ætlaði að fara að leggja mig var hann að vakna ! Ábyrgðartilfinningin var alveg að fara með mig enda eru þetta rosaleg viðbrigði að vera allt í einu komin með þetta litla líf sem er algjörlega háð foreldrunum.  Ó, ég er farin að hlakka svo til að fá að upplifa þetta allt aftur.

 

  • 1
Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 6
Gestir í gær: 6
Samtals flettingar: 64359
Samtals gestir: 30387
Tölur uppfærðar: 25.7.2021 08:41:05